Garðplöntuframleiðendur

Félag garðplöntuframleiðenda

 

Upphafið að stofnun Félags garðplöntuframleiðenda má rekja til ársins 1976. Þá var stofnuð einskonar Íslandsdeild I.G.C. International Garden Center Association. Íslenska deildin fékk nafnið „Félag garðmiðstöðva“. Í Svíþjóð hét samsvarandi deild „Gröna ringen“.

 

Þessi samtök urðu ekki langlíf, því fljótlega kom í ljós að þessi alþjóðasamtök voru frekar sniðin að verslun með garðplöntur og skyldar vörur, frekar en að framleiðslu þeirra. Mjög fáir höfðu sérhæft sig þannig á þessum tíma.

 

Það var síðan í maí 1986 að Félag garðplöntuframleiðenda var stofnað í þeirri mynd sem það starfar nú. Fyrsti formaður þess var Pétur N. Ólason í Gróðrarstöðinni Mörk.

 

Félagið hefur alla tíð starfað sem hagsmunasamtök, þar sem sameiginleg hagsmunamál eru tekin fyrir, reynt að leysa þau eða koma í betra horf. Af fjölmörgum málum sem unnið hefur verið að má nefna: sanngjarna innheimtu sjóðagjalda til Bændasamtaka Íslands og baráttu gegn samkeppni ríkis og bæjarfélaga í garð og skógarplöntuframleiðslu. Einnig hefur íslenskur staðall fyrir garðplöntur verið lengi á dagskrá, og er ekki ennþá til lykta leiddur.

 

Fjölmargir fyrirlesarar hafa komið á fundi félagsins og tekið fyrir ýmis málefni. Samskipti við norræna samstarfsaðila hafa verið nokkur. Þriðja hvert ár er haldið „Nordisk planteskongress“ á Norðurlöndunum til skiptis, og hefur svo verið í meira en hálfa öld. Hópur héðan hefur tekið þátt í tveim síðustu ráðstefnum, sem eru í reynd vel skipulagðar og skemmtilegar skoðunarferðir. Er þar tvinnað saman faglegum þáttum og skemmtilegum uppákomum. Í sumar stendur til að þetta „planteskolekongress“ verði haldið á Íslandi.

 

Árið 1989 gerðist Félag garðplöntuframleiðenda aðili að Sambandi garðyrkjubænda og þar með þátttakandi í þeirri báráttu sem garðyrkjan á Íslandi hefur oft þurft að há fyrir tilverurétti sínum.

 

Síðustu tvö árin hafa tvö verkefni tekið hug okkar allan. Annars vegar er verkefni sem hlotið hefur nafnið „Yndisgróður“. Þetta er langtímaverkefni sem felst í því að finna hvaða garðplöntur hafa staðið sig best í gegnum tíðina á Íslandi, og skilgreina þær. Síðar mun verkefnið einnig ganga út á það að finna nýjar garðplöntur sem prýtt geta garða landsmanna. Landbúnaðarháskóli Íslands hefur nú tekið þetta verkefni upp á sína arma.

 

Hitt verkefnið hefur hlotið nafnið „Selja“. Í því felst að safna myndum og helstu upplýsingum um allar garðplöntur sem íslenskar garðplöntustöðvar bjóða til sölu. Þessum upplýsingum hefur síðan verið safnað inn á ákv. gagnagrunn. Með aðgangi að honum geta íslenskar garðplöntustöðvar haft samræmdar merkingar á sölusvæðum sínum, til mikils hagræðis fyrir viðskiptavinina. Fánaröndin, sem íslensk garðyrkja auðkennir framleiðslu sína með, auðkennir einnig íslenskar garðplöntur.

 

Heimasíða sú sem hér er kynnt, er árangur af þessarri vinnu og gerir notendum hennar kleift að kynna sér á aðgengilegan hátt það mikla úrval sem íslenskar garðplöntustöðvar bjóða uppá.

 

Núverandi stjórn Félag garðplöntuframleiðenda er þannig skipuð:

 

Formaður: Vernharður Gunnarsson (Gróðrarstöðin Storð)
Ritari: Helga Ragna Pálsdóttir (Gróðrarstöðin Kjarr)
Gjaldkeri; Guðmundur Vernharðsson (Gróðrarstöðin Mörk)

 

 

Garðplöntuframleiðendur

Álmur ehf
Garðaþjónusta Gylfa, garðplöntustöð
Garðplöntusalan Borg
Garðplöntustöðin Gróandi
Garðyrkjustöð Ingibjargar
Garðyrkjustöðin Kvistar
Garðyrkjustöðin Laugarmýri
Gróðrarstöðin Dilksnesi í Hornafirði
Gróðrarstöðin Glitbrá
Gróðrarstöðin Kjarr
Gróðrarstöðin Mörk
Gróðrarstöðin Réttarhóll
Gróðrarstöðin Storð
Gróðrastöðin Þorgautsstöðum 2
Heiðarblómi gróðrarstöð
Nátthagi garðplöntustöð
Sigurður Ásgeirsson, Furubrún
Sólskógar