fbpx

Klifurplöntur

Klifurplöntur

klifurplontur

Glæsilegur skógartoppur

Ræktun klifurplantna getur verið mjög skemmtileg og í gróðrarstöðvum má fá fjölbreytt úrval harðgerðra og fallegra klifurplantna. Úrvalið eykst ár frá ári og sífellt bætast í hópinn nýjar tegundir og yrki. Flestar eru þessar plöntur með eindæmum blómviljugar en aðrar prýða með glæsilegu laufskrúði. Bæði er hægt að rækta ýmsa harðgerða klifurrunna og líka jurtkenndar plöntur sem koma upp aftur og aftur.  Einnig er hægt að fá einærar klifurplöntur sem þá þarf að endurnýja á hverju ári.

Klifurplöntur eiga það sammerkt að þurfa stuðning til að vaxa upp af jörðinni. Þær má rækta með ýmsu móti t.d á grindum upp við húsvegg, upp við frístandandi skjólveggi, upp eftir trjástofnum, í kerjum og með ýmsu öðru móti.

Skógartoppur ‘E.Brand’

Það þarf bara að hafa það í huga að runnkenndar plöntur þurfa nokkuð varanlega og trausta klifurgrind. Grindin getur verið úr plasthúðuðu vírneti eða úr timbri og hentug möskvastærð gæti verið milli 10 og 25 sm.  Klifurgrindin þarf að vera 5-10 sm frá vegg og æskilegt er að hægt sé að losa hana af og leggja niður án mikillar fyrirhafnar ef að taka á til hendinni og t.d. mála vegginn bak við grindina. Stundum getur verið nóg að vera með nokkra víra sem stuðning en þeir þurfa helst að vera úr stáli eða plasthúðuðum vír.  Þá eru 3-4 vírar hafðir fyrir hverja plöntu og þeir staðsettir með 30-50 sm millibili og plönturnar látnar klifra upp vírana.  Slíkir vírar henta ágætlega fyrir t.d humal og skógartopp.

Mismunandi er hvernig plönturnar festa sig við klifurgrindur. Sumar vefja sig við grindurnar, aðrar grípa um vírana og enn aðrar hafa heftirætur sem festa sig við vegginn. Þegar klifurplanta er gróðursett upp við vegg verður að staðsetja hana 30-50 sm frá veggnum þar sem  oft er of þurrt næst honum.  Plöntunni er síðan hallað upp að veggnum og gott er að festa hana með mjúku snæri til að byrja með. Margar klifurplöntur þola vel að standa á skuggsælum stað t.d undir trjám eða við norðurvegg.  Þetta á við um tegundir eins og bergfléttu, fjallabergsóley, humal og klifurhortensíu.

Nokkrar helstu tegundir klifurplantna í íslenskum gróðrastöðum:

 

Bjarmabergsóley í blóma

Bergsóley (Clematis sp.)

Hér á landi eru ræktaðar nokkrar tegundir bergsóleyja og er fjallabergsóley (C. alpina) þeirra algengust. Hún er oftast blá og hvít en er líka til fjólublá, bleik eða hvít. Aðrar algengar tegundir eru bjarmabergsóley (C. tangutica) sem blómstrar gulum lútandi klukkum og kóreubergsóley (C. koreana) sem hefur bleik blóm.  Síberíubergsóley (C. macropetala) er líka fáanleg og blómgast hvítum blómum. Bergsóleyjar eru duglegar að vefja sig upp klifurgrindur og víra.

Klifurrósir ( Rosa sp.)

Rós ‘Pólstjarnan’

Algengustu klifurrósir hér á landi hafa verið ‘Polstjärnan’ og ‘Flammentanz’.  ‘Chinatown’ og ‘William Lobb’ eru líka rósir sem hafa náð útbreiðslu hér á landi. En sífellt eru að koma í sölu nýjar og glæsilegar rósir.  Æskilegt er að festa klifurrósir með mjúku snæri á einstaka stað á klifurgrindina þar sem þær festa sig ekki almennilega sjálfar.

Skógartoppur ‘Belgica’

Skógartoppur (Lonicera periclymenum)

Skógartoppur hefur verið ræktaður hér á landi í áratugi og reynst harðgerður og blómviljugur.  Til eru ýmis yrki með rauðum og gulum blómum. Hann er fljótvaxinn, blómgast síðsumars og er hægt að láta hann vaxa upp við trjástofna og skjólveggi. Hann vefur sig einnig auðveldlega um víra og grindur.

Bergflétta (Hedera helix)

Bergflétta telst sígrænn klifurrunni sem festir sig við undirlagið með svokölluðum heftirótum og þarf því ekki sérstaka klifurgrind. Hún er allfljótvaxin og harðgerð jafnvel þar sem sjórok getur komið.  Bergflétta er til í ýmsum afbrigðum,  hún er til bæði með fín og grófgerð laufblöð.  Einnig eru til yrki með mismunandi hvítflekkótt blöð.

Bergflétta ‘Baltica’

Klifurhortensía (Hydrangea anomala ssp. petiolaris)

Klifurhortensía klifrar með heftirótum líkt og bergfléttan og blómgast hvítum blómum í stórum sveipum.  Hún þarf frekar hlýjan og góðan vaxtarstað.  Klífurhortensía er ekki algeng hér en er mjög falleg garðplanta.

Humall (Humulus lupulus)

Humall er mjög duglegur og kröftugur fjölæringur sem er fljótur að klifra upp víra á sumrin.  Nauðsynlegt er að klippa plönturnar niður við jörð á haustin eða vorin til að endurnýja plöntuna.

Kattaflétta (Actinidia kolomikta)

Kattaflétta hefur mjög skrautleg græn, hvít og bleik laufblöð og er aðallega ræktuð vegna blaðfegurðar.  Hún vefur sig uppeftir klifurgrindum líkt og bergsóley. Sæmilega harðgerð, blómin eru hvít og frekar smá.

Ilmertur (Lathyrus odoratus)

Fíngerð klifurplanta sem nær um 1,5-2 m hæð.  Einær planta sem til er með ýmsa blómliti og blómin ilma mjög mikið. Hefur klifurþræði til þess að festa sig á grindur.

Blóm skjaldfléttu

Skjaldflétta (Tropaeolum majus)

Skjaldflétta er þekktust sem sumarblóm í hengipotta en hún er mjög breytileg tegund sem getur klifrað hratt ef að rétt yrki eru valin. Blómin eru gul, appelsínugul eða rauð.  Einær planta sem þekur og klifrar en er líka til runnvaxin.

Stundum eru klifurplöntur líka notaðar sem þekjuplöntur. Þá hafa þær ekkert til að klifra eftir og halda sig við jörðina. Þetta á t.d við um fjallabergsóley, humal og skjaldfléttu.